Súrdeigsmamma

Núna þegar ég byrja að skrifa þennan pistil á ég mömmu en til þess að sanna að það sé hægt að koma sér upp súrdeigsmömmu á sjö dögum þá ætla ég að fylgja þessum leiðbeiningum sjálfur.

Eina sem þarf til að koma þessu í gang er heilhveiti og vatn. Hinsvegar gekk þetta brösulega hjá mér í fyrsta skipti og notaði ég þá rúgmjöl sem hjálpaði alveg gífurlega. Þess vegna ætla ég að hafa rúgmjöl inní starternum.

Hægt er að sjá TL;DR neðst í greininni.

Á milli hvers dag þarf í það minnsta að líða 12 tímar og mest 24 tímar. Ég tók fyrstu 3 dagana með einungis 12 klst á milli þess að ég bætti á krukkuna. En það leið 24 klst á milli á fjórða og fimmta degi. Það er því kjörið að hefja þetta verk eftir vinnu á föstudegi. En maður má ekki vera of aggressívur að bæta á heldur.

Dagur 1

 • 25 gr heilhveiti
 • 25 gr rúgmjöl
 • 50 gr volgt vatn (ég nota vatn við 50° celsíus)

Þegar ég er búinn að hræra þessu vel saman þá set ég þetta í krukku.
Ég bæti svo við nokkrum dropum af vatninu ofaná súrinn. Krukkuna geymi ég svo á stað þar sem verða ekki miklar breytingar á hitastigi. Núna þarf að bíða í 12 – 24 klst.

Dagur 2, 3 og 4

Þessa daga geri ég nákvæmlega það sama og fyrsta daginn nema blöndunni í krukkunni er bætt við.

Dagur 2: Loftbólurnar eru mættar
Dagur 3: Færði súrinn í stærri krukku
Dagur 5

Dagur 5

Núna eru komin ca 400 gr af starter í krukkuna sem er fullkomið magn til þess að baka með. Ég ætla að bæta við sömu blöndu aftur en næsta dag breytist uppskriftin.

Dagur 6 og fram í eilífðina – Að gefa súrnum að borða

Núna tek ég helminginn af súrnum og hendi. Ég læt þetta bara renna niður vaskinn. Þegar það er búið og gert þá er eftirfarandi blöndu bætt við:

 • 125 gr volgt vatn
 • 75 gr heilhveiti
 • 25 gr rúgmjöl

Þetta þarf að gera á hverjum degi á meðan súrinn er við stofuhita. Ef súrinn er settur í ísskáp þarf ekki að gefa honum að borða í heila viku (plús kannski nokkrir dagar).

Ég mæli með að halda áfram að „gefa“ súrnum í nokkra daga í viðbót áður en hann er svo settur í ísskáp. Það líður ein vika á milli þess að ég gef súrnum mínum þegar hann er í ísskápnum. Það er vegna þess að það hægist á bakteríunni í kulda.

Þegar ég var búinn að gera þetta mjög oft þá var ég farinn að hella 220 gr af starternum í skál og bæta við þessari uppskrift. Þetta geri ég yfirleitt um helgar en þá er hægt að nota því sem á að henda í pizza uppskrift.

TL;DR:

 • Keyptu heilhveiti + rúgmjöl
 • Dagur 1, 2, 3, 4, 5: Á 12 – 24 klst fresti, bættu við eftirfarandi í stóra krukku og hrærðu saman:
  • 50gr volgt vatn + 25gr heilhveiti + 25gr rúgmjöl
 • Dagur 6: Taktu helminginn af súrnum og helltu í vaskinn
  • Bættu við 125gr volgt vatn + 75gr heilhveiti + 25gr rúgmjöl
  • Endurtaktu á hverjum degi (12-24 klst fresti) eða settu í ísskáp og endurtaktu á viku fresti.